Erlent

Tugþúsundir mótmæla Chavez

Óli Tynes skrifar
Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela.

Tugþúsundir manna mótmæltu því í dag á götum úti að Hugo Chavez forseti Venesúela ætlar að loka elstu einareknu sjónvarpsstöð landsins. Chavez telur stöðina ekki holla sér og sakar hana um að hafa átt þátt í að reyna að steypa sér af stóli árið 2000. Chavez hefur löngum átt í útistöðum við einkareknar sjónvarpsstöðvar.

Rekstrarleyfi stöðvarinnar rennur út hinn 27. þessa mánaðar og forsetinn hefur sagt að leyfið verði ekki endurnýjað. Þess í stað á að koma ný ríkisrekin sjónvarpsstöð sem styður vinstri byltingu hans. Fréttaskýrendur hafa skilgreint gagnrýna fjölmiðla sem eina helstu trygginguna fyrir því að Chavez breyti ekki Venezúela í byltingarríki að Kúbverskri fyrirmynd. Forsetinn er mikill vinur og aðdáandi Fidels Castros.

Chavez var endurkjörinn forseti á síðasta ári með miklum meirihluta atkvæða. Hann nýtur enn stuðnings um 60 prósenta landsmanna. Jafnvel stuðningsmenn hans eru þó á móti því að sjónvarpsstöðinni verði lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×