Erlent

Mikil spenna á fundi Rússa og ESB

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Portúgalinn Jose Manual Barroso, Angela Merkel og Vladimir Putin eftir fundinn í dag.
Portúgalinn Jose Manual Barroso, Angela Merkel og Vladimir Putin eftir fundinn í dag. MYND/AFP
Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varaði Rússa í dag við einingu innan sambandsins. Ef vandamál væru við eitt ríki innan þess, væri það vandamál allra aðildarlandanna. Ummælin lét Barroso falla eftir fund milli ESB og Rússa. Hann sagði einnig að sambandið væri byggt á lögmálum um samstöðu. Fjölda mómælenda var meinaður aðgangur að ráðstefnustaðnum. Fundurinn fer fram við Volgubakka í borginni Samara í Rússlandi og er haldin í skugga deilna milli Moskvu og landa eins og Eistlands og Póllands. Deilur hafa einnig risið milli Moskvu og Brussel vegna stöðu mála í Kosovo, og í orku- og viðskiptamálum. Angela Merkel kanslari Þýskalands, sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, lét í ljós áhyggjur vegna frétta af því að mótmælendur kæmust ekki að ráðstefnustaðnum. Lögreglumenn meinuðu skákmeistaranum Garry Kasparov og öðrum leiðtogum stjórnarandstöðu að fljúga til svæðisins til að taka þátt í mótmælum. Nokkrum erlendum fréttamönnum mun hafa verið meinað að ferðast til staðarins að sögn fréttavefs BBC. Haft er eftir embættismanni Evrópusambandsins að spennan á fundinum sé augljós.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×