Erlent

Sýknaður af morði á Miðnesheiði

Herdómstóll í Bandaríkjunum sýknaði í gær hermann sem ákærður var fyrir morð á félaga sínum á varnarsvæðinu á Miðnesheiði í ágúst 2005, þrátt fyrir að sterkar vísbendingar væru fyrir sekt hans.

Hin tvítuga Ashley Turner fannst liggjandi í blóði sínu í tómstundaherbergi vistar sinnar á Miðnesheiði að kvöldi 14. ágúst 2005 en áverkar á líki hennar sýndu að hún hafði sætt miklum barsmíðum og svo stungin. Átta dögum síðar hefði hún átt að bera vitni gegn Calvin Eugene Hill en honum var gefið að sök að hafa stolið af henni bankakorti og tekið út peninga. Grunur féll því þegar á hann og hann var svo ákærður fyrir morðið á henni en dauðarefsing liggur við slíku afbroti.

Vegna lokunar herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli fóru réttarhöldin fram í Bolling í Washington. Yfir níutíu vitni voru kölluð fyrir herdómstólinn, þar á meðal taílensk unnusta Hill sem búsett er á Íslandi. Hún vottaði um að kvöldið sem morðið var framið hafi hann komið inn í herbergi þeirra löðursveittur og illa lyktandi og því farið í sturtu. DNA-rannsókn leiddi svo í ljós að blóð á strigaskóm Hill var úr Turner. Þrátt fyrir þetta þótti dómstólnum ekki fullsannað að Hill hefði banað Turner, blóðið hefði til dæmis getað slest á skóna þegar herlögreglan leiddi Hill í gegnum vettvang morðsins. Því var ákveðið að sýkna hann.

Samkvæmt bandarískum lögum er mögulegt að áfrýja dómi herdómsstóla en ekki liggur fyrir hvort það verði gert í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×