Erlent

Barnaníðingar stöðvaðir

Lögregla í Frakklandi og Belgíu hefur handtekið þrjá menn sem voru komnir á fremsta hlunn með að ræna belgískri telpu og misþyrma henni.

Þetta óhugnanlega mál minnir talsvert á illvirki Belgans Marc Dutroux sem á sínum tíma rændi sex stúlkum og misþyrmdi þeim kynferðislega. Tveir mannanna sem hér um ræðir búa í Rúðuborg í Frakklandi og með aðstoð þriðja mannsins, sem býr í Belgíu, höfðu þeir fundið unga stúlku sem þeir hugðust ræna. Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt í morgun kom fram að þeir hefðu ætlað að halda stúlkunni yfir helgi, misþyrma henni kynferðislega og festa ódæðin á filmu. Eftir nokkra daga átti svo að sleppa telpunni, en ekki fyrr en búið væri að brennimerkja hana með stafnum "S", sem vísar til franska orðsins fyrir minjagrip. Í fórum höfuðpaursins fundust tæki til slíkra merkinga, handjárn og myndbandstökuvél. Lögreglan hafði fylgst með níðingunum í nokkurn tíma en ákvað loks að láta til skarar skríða þegar ljóst var að þeir ætluðu að hrinda áformum sínum í framkvæmd. Þeirra bíður allt að tíu ára löng fangelsisvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×