Erlent

Eistar saka Rússa um netárásir

Jónas Haraldsson skrifar
Tallin, höfuðborg Eistlands.
Tallin, höfuðborg Eistlands. MYND/AFP
Eistar hafa sakað Rússa um að standa fyrir netárásum á vefþjóna ríkisstjórnarinnar og nokkura dagblaða í landinu. Ef rétt reynist, er þetta í fyrsta sinn sem að ríki ræðst gegn öðru með þessum hætti.

Talið er að deilan um styttuna af sovéska hermanninum sé kveikjan að árásunum. Þær hófust fljótlega eftir að sú deila byrjaði. Norðuratlantshafsbandalagið, NATO, hefur sent sína helstu tölvufræðinga til Eistlands til þess að styrkja varnir þeirra.

Árásirnar verða meðal annars ræddar á morgun á leiðtogafundi Evrópusambandsins og Rússlands. Engu að síður hafa hvorki Evrópusambandið né NATO sakað Rússa um árásirnar opinberlega. Þau segja erfitt að sanna að rússneska ríkisstjórnin standi á bak við árásirnar.

Forseti, utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Eistlands hafa allir rætt um málið við starfsbræður sína í Evrópu og hjá NATO. Samkvæmt stofnsáttmála NATO eru ríki bundin til þess að verjast með ríki sem ráðist er á. Engu að síður nær hann ekki yfir árásir á netinu.

Eistland er mjög framarlega í öllu sem tengist tölvum og hafa notað tölvutæknina mikið í sambandi við stjórnkerfi landsins. Á sama tíma og það þykir framúrstefnulegt gerir það landið einnig mjög viðkvæmt fyrir árásum tölvuþrjóta.

Árásirnar núna eru svokallaðar DDoS árásir en þá er ráðist gegn vefsíðum með tugum þúsunda heimsókna samtímis. Vefsíðan getur þá ekki annað eftirspurninni og lokast. Árásirnar hafa komið hvaðanæva að úr heiminum en ritstjóri dagblaðs, hvers vefsíða hefur legið niðri í viku vegna árásanna, segir að þær komi frá Rússlandi. Fulltrúar stjórnvalda segja að einn af höfundum árásanna sé tengdur rússnesku öryggisþjónustunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×