Erlent

Búist við afsögn Wolfowitz í dag

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Stjórn Alþjóðabankans leggur nú lokahönd á áætlun sem auðveldar Paul Wolfowitz bankastjóra að komast frá starfi sínu sem fyrst án þess að hljóta mikinn álitshnekki. Búist er við að Wolfowitz segi af sér seinna í dag vegna tilrauna hans til þess að fá stöðu- og launahækkun fyrir ástkonu sína sem vinnur hjá bankanum. Fréttastofa ABC greinir frá þessu.

Wolfowitz flutti stjórninni varnarræðu sína í gærkvöldi þar sem hann varaði hana við að segja sér upp, slíkt gæti skaðað bankann og skjólstæðinga hans.

Stjórnvöld í Washington hafa hingað haldið hlífiskildi yfir Wolfowitz en formælandi Hvíta hússins viðurkenndi í dag að framferði hans hefði teflt trúverðugleika bankans í alvarlega tvísýnu.

Stjórn bankans hafði áður komist að því að bankastjórinn hefði brotið reglur bankans með athæfi sínu. Stjórnin hefur hvorki nýtt sér það vald sitt að reka Wolfowitz úr starfi, né að lýsa vantrausti á hann.

Wolfowitz hefur áður sagt að hann muni ekki segja af sér vegna málsins. Stjórnvöld í Washington halda hlífiskildi yfir Wolfowitz en hefð er fyrir því að Bandaríkjamenn skipi bankastjóra Alþjóðabankans.

Wolfowitz var einn af helstu arkitektum innrásarinnar í írak og hefur alla tíð lagt áherslu á að Bandaríkin noti herafla sinn til að koma málum sínum áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×