Erlent

Rússar vildu eyða kjarnorkuveri Ísraela

Óli Tynes skrifar
Ísraelska kjarnorkuverið í Dimona.
Ísraelska kjarnorkuverið í Dimona.

Tveir ísraelskir rithöfundar halda því fram í nýrri bók að Sovétríkin hafi hrint sex daga stríðinu af stað, til þess að geta eyðilagt kjarnorkuvopnabúr Ísraels. Vopnin hafi snúist í höndum Rússa þegar Ísraelar gersigruðu heri Arabaríkjanna á ótrúlega skömmum tíma.

Í júní árið 1967 virtist Ísrael standa á barmi glötunar. Hundruð þúsunda hermanna fjandsamlegra Arabaríkja höfðu safnast saman við landamæri þess. Arabaríkin höfðu gert með sér sérstakt bandalag sem miðaði að því að útrýma Ísrael. Helstu siglingaleiðum hafði verið lokað.

Ísraelar kusu að gera fyrirbyggjandi árás. Og gersigruðu heri Araba á sex dögum. Það hefur löngum verið viðtekin skoðun að Sovétríkin hafi átt stóran þátt í að koma þessu stríði af stað. Talið hefur verið að þeir hafi gert það til þess helst að styrkja stöðu sína í Miðausturlöndum.

Ísraelsku höfundarnir segja hinsvegar að það hafi verið dýpra á megintilgangi Rússa. Þeir hafi vitað vel af kjarnorkuvopnaáætlun Ísraels og ætlað að nota þetta tækifæri til þess að binda enda á hana. Svipað og Ísraelar gerðu sjálfir þegar þeir sprengdu kjarnorkuver Íraka í loft upp árið 1981.

Höfundarnir segja að einn liður í áætlun Rússa hafi verið sameiginleg árás rússneskra og egypskra sprengjuflugvéla á Dimona kjarnorkuverið í Ísrael. Yfirburðir Ísraela bæði í lofti og á jörðu hafi hinsvegar verið slíkir að áætlun Rússa rann út í sandinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×