Erlent

Sarkozy orðinn forseti

Nicolas Sarkozy sór embættiseið sinn sem forseti Frakklands í morgun. Í setningarræðu sinni kallaði hann eftir þjóðareiningu og boðaði breytingar á frönsku samfélagi. Búist er við að Sarkozy skipi ríkisstjórn sína í fyrsta lagi á morgun.

Þar með er tólf ára valdatíð Jacques Chiracs formlega lokið en hann flutti kveðjuræðu sína í gær. Í morgun hitti hann Sarkozy í forsetahöllinni í París og afhenti honum aðgangskóðana að kjarnorkuvopnabúri Frakklands og að þeim fundi loknum hófst sjálf innsetningarathöfnin. Í ræðunni sem Sarkozy hélt við þetta tækifæri hét hann því að sameina frönsku þjóðina á ný og koma á ýmsum breytingum sem gerðu Frakkland sterkara, bæði í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Í utanríkismálum kvaðst nýi forsetinn ætla að setja mannréttinda- og loftslagsmál á oddinn.

Að ræðu sinni lokinni gekk Sarkozy strax að konu sinni Ceciliu og kyssti hana en með því hafa þau eflaust viljað slá á þrálátan orðróm um að hún styddi eiginmann sinn ekki heilshugar. Síðar í dag mun Sarkozy leggja blómssveig að leiði óþekkta hermannsins við Sigurbogann en svo heldur hann til Þýskalands til fundar við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Markmið þeirrar ferðar er ekki síst að undirstrika mikilvægi þessara tveggja öflugustu ríkja álfunnar. Búist er við að Sarkozy geri íhaldsmanninn Francois Fillon að forsætisráðherra sínum á morgun og á föstudag verði aðrir ráðherrar skipaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×