Erlent

Föðurlandið, sósíalismi eða dauði!

Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela. MYND/AFP

Venesúela hefur tekið sér slagorð forseta landsins, Hugo Chavez, „Föðurlandið, sósíalismi eða dauði" sem opinbera kveðju landsins. Það er talið merki um aukin völd Chavez í opinberum stofnunum í landinu. Slagorðið er afleiða af slagorði Fidels Castro, forseta Kúbu, „Föðurland eða dauði, Við munum sigra" og er nú notað á öllum fundum Chavez.

Samskiptadeild sjóhersins staðfesti við fréttamenn að slagorðið ætti að fara í almenna notkun og sérstaklega þegar hermenn væru að ávarpa æðri foringja. Venesúelski herinn hefur ekki staðfest að hann muni taka upp slagorð Chavez.

Hugo Chavez hefur stuðning frá hernum, olíufyrirtæki ríkisins og dómsvaldi í landinu og í ljósi þess hefur hann keyrt í gegn umdeildar þjóðnýtingar á ýmsum verkefnum. Hann hefur meðal annars tekið yfir raforkufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og olíuverkefni erlendra olíufélaga. Herforingar gerðu uppreisn gegn honum árið 2002 og hefur hann síðan hreinsað herinn af öllum þeim sem standa honum í vegi.

Chavez hefur síðan notað olíuauð landsins til þess að kaupa vopn og hækka laun hermanna. Talsvert hefur verið talað um að herinn eigi að vera hlutlaus stofnun en stuðningsmenn Chavez segja herinn ávallt hafa verið pólitískan og því sé það eðlilegt að hann taki upp slagorð Chavez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×