Erlent

Trúarhópar takast á í Egyptalandi

Að minnsta kosti 10 kristnir Egyptar særðust í átökum á milli trúarhópa í þorpi nálægt Kaíró. Kristnir ætluðu sér að byggja kirkju í þorpinu án þess að hafa fyrir því tilskilin leyfi og því brutust átökin út. Kveikt var í fjórum húsum í þropinu Behma í átökunum sem blossuðu upp í morgun, stuttu eftir að bænastund múslima var lokið.

Lögregla sagði að hún hefði stöðvað átökin sem tæplega 500 manns tóku þátt í. 17 voru handteknir. Koptar, sem eru kristnir, eru um tíu prósent af Egyptum, sem eru 75 milljónir talsins. Flestir þeirra eru súnní múslimar. Tengsl hópanna tveggja eru venjulega í góðu en ofbeldi brýst þó út af og til. Árið 1990 létu 22 lífið í átökum trúarhópa í suðurhluta Egyptalands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×