Erlent

Páfinn í Suður-Ameríku

Jónas Haraldsson skrifar
Páfinn heilsar hér forseta Brasilíu við komuna til landsins í dag.
Páfinn heilsar hér forseta Brasilíu við komuna til landsins í dag. MYND/AFP
Benedikt páfi er nú kominn til Sao Paulo og hefur þar fimm daga heimsókn sína til fjölmennustu rómversk-kaþólsku þjóðar í heiminum. Þetta er fyrsta heimsókn hans til Suður-Ameríku síðan hann tók við embætti.

Í heimsókn sinni mun hann halda nokkrar messur en megintilgangur hennar er að sækja ráðstefnu biskupa í Suður-Ameríku. Þar er búist við því að hann muni ræða um sífellda sókn lúterstrúar í heimsálfunni. Trúarhópar að bandarískri fyrirmynd hafa líka verið að sækja í sig veðrið í álfunni. Einnig er búist við því að hann muni mæla gegn fóstureyðingum.

Stjórnvöld í Mexíkó lögleiddu nýverið fóstureyðingar. Páfi sagði að þeir stjórnmálamenn sem greiddu þeim lögum atkvæði sitt ætti að bannfæra. Talsmaður Vatíkansins sagði síðar að páfi ætlaði sér ekki að bannfæra neinn. Engu að síður sagði hann fóstureyðingu ekki standast lög rómversk-kaþólsku kirkjunnar og að þar með fjarlægðu stjórnmálamennirnir sig frá kirkjunni.

Málið er einnig hitamál í Brasilíu en heilbrigðisráðherrann þar í landi sagðist nýlega vilja opnari umræður um fóstureyðingu. Prestar hafa þegar brugðist harkalega við þeirri tillögu ráðherrans.

Stærsta málið er þó sem áður sífelldur flótti frá rómversk-kaþólsku kirkjunni. Talið er að boð kristinna, sem snýst um að viðkomandi geti frelsast samstundis, en þurfi ekki að bíða ævina á enda eftir frelsun, sé það sem valdi. Einnig það stuðningsnet sem slíkar kirkjur veita skjólstæðingum sínum. Þá þykja hefðir rómversk-kaþólsku kirkjunnar líka vera of íhaldssamar og ekki í tengslum við raunveruleikann og það líf sem fólk lifir dags frá degi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×