Erlent

Enn ein árásin á borgara

21 borgari er sagður hafa látið lífið í árásum Atlantshafsbandalagsins á búðir talibana í Helmand-héraði í Afganistan í morgun.

Að sögn héraðsstjórans í Helmand voru árásirnar í morgun gerðar úr lofti á hús þar sem talibanar voru taldir hafa hreiðrað um sig. Í húsunum hafi hins vegar einungis saklausa borga verið að finna og 21 þeirra hafi látið lífið, þar af nokkur börn. Talsmenn Bandaríkjahers hafa staðfest að harðir bardagar hafi átt sér stað á þessum slóðum sem margir talibanar hafi fallið í en þeir segjast enga vitneskju hafa um mannfall borgara. Íbúar á svæðinu segja NATO-hermenn hafa lokað leiðum að vettvangi árásanna og því sé afar erfitt að staðfesta mannfallið. Dæmi eru hins vegar um að talibanar leiti skjóls í húsum óbreyttra Afgana sem ráðist er á í kjölfarið.

Aðeins er einn dagur liðinn frá því að Bandaríkjaher lýsti iðrun sinni yfir að hafa fellt 19 borgara í árás í marsmánuði og í ársbyrjun lýstu yfirmenn NATO því yfir að þeirra verstu mistök í hernaðinum í Afganistan væru hversu margt saklaust fólk hefur látið lífið. Þolinmæði Afgana yfir hernáminu er sögð fara þverrandi enda hefur hagur þeirra lítið batnað við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×