Erlent

Hefur þú heyrt þennan?

Óli Tynes skrifar
Börnin báðu um pláss í kirkjugarði.
Börnin báðu um pláss í kirkjugarði. MYND/AP

Það er sjaldan létt yfir fundum milli herforingja Norður- og Suður-Kóreu. Oftast er þar skipst á ásökunum og svívirðingum. Fulltrúar Suður-Kóreu vissu því varla hvernig þeir áttu að bregðast við þegar yfirsamningamaður norðanmanna byrjaði fund í dag á því að segja brandara. Brandarinn fjallaði náttúrlega um George Bush.

Bush fer út að skokka morgun einn. Hann er niðursokkinn í að hugsa um heimsmálin og tekur ekkert eftir því að hann hleypur í veg fyrir bíl. Skólabörn sem eru þarna á gangi bjarga honum naumlega undan bílnum.

Bush þakkar börnunum lífgjöfina og spyr hvað hann geti gert fyrir þau í staðinn. Þau megi biðja um hvað sem er. Eftir nokkuð pískur segja börnin að þau vilji láta taka frá pláss fyrir sig í Arlington þjóðkirkjugarðinum.

"Af hverju í ósköpunum viljið þið það ?" spyr forsetinn.

"Pabbi og mamma drepa okkur þegar þau frétta hvað við höfum gert."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×