Erlent

Í mál af því að hann dó ekki

Óli Tynes skrifar
John var meðal annars búinn að undirbúa og borga fyrir jarðarför sína.
John var meðal annars búinn að undirbúa og borga fyrir jarðarför sína.

Þegar læknar sögðu John Brandrick að hann væri með krabbamein í briskirtli og ætti aðeins sex mánuði eftir ólifað, brá honum auðvitað í brún. Læknar höfðu fundið sjö sentimeetra langt æxli í þessum sextíu og tveggja ára gamla breska afa. John ákvað þó að gera það besta úr öllu saman og lifa lífinu lifandi. Það er að segja því sem eftir væri af því.

Hann hætti að vinna, hætti að borga af húsinu sínu og tók allt sparifé sitt út úr bankanum. Svo lifði hann eins og kóngur. Borðaði á dýrustu veitingahúsum. Flaug á fyrsta farrými fram og aftur um heiminn. Gaf Rauða krossinum öll fötin sín nema sumarfötin, því hann átti jú ekki að sjá annan vetur.

Peningarnir voru búnir og rúmlega það, þegar læknarnir sögðu honum að það hefðu orðið smá mistök. Æxlið var góðkynjað og hann gæti þessvegna orðið 100 ára. John var býsna glaður að heyra það. En hann var líka býsna blankur. Hann hefur höfðað mál gegn breska heilbrigðiseftirlitinu til að fá aftur eitthvað af öllum þeim peningum sem hann eyddi eftir að honum var sagt að hann væri að hrökkva uppaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×