Erlent

Sarkozy talinn öruggur um sigur

Segolene Royal.
Segolene Royal. MYND/AP

Flest bendir til að Nicolas Sarkozy muni vinna nokkuð öruggan sigur á Segolene Royal í síðari umferð frönsku forsetakosninganna sem fram fer á sunnudaginn. Síðustu skoðanakannanir kosningabaráttunnar sýna að talsvert hefur dregið í sundur með þeim á lokasprettinum.

Formlegri kosningabaráttu frambjóðendanna tveggja lýkur í kvöld en frá og með miðnætti er birting skoðanakannana og kosningaáróðurs bönnuð. Þau Nicolas Sarkozy og Segolene Royal reyndu því að nota daginn vel til að ná til kjósenda. Sarko brá sér suður á bóginn og skoðaði stríðsminnismerki í einu af Alpahéruðum Frakklands en Sego heimsótti Bretóna í norðvestrinu. Ef marka má síðustu skoðanakannanir á Royal talsvert á brattann að sækja. Í könnun dagblaðsins Le Monde sem birt var í morgun segjast 53 prósent aðspurðra ætla að kjósa Sarkozy en 47 prósent Royal. Le Figaro metur stöðu Sarkozy enn sterkari, hann fengi 54,4 prósent atkvæða ef kosið yrði nú en Royal 45,5 prósent. Sérfræðingar segja ýmsar skýringar á að forskot Sarkozy hafi aukist, hann virðist til dæmis hafa náð til sín stærri hluta miðjufylgisins.

Þótt útlit sé fyrir sigur Sarkozy fer því fjarri að hann sé óumdeildur. Þannig var efnt til mótmæla í París í morgun gegn framboði hans. Franskir kjósendur kveða svo upp sinn dóm á sunnudaginn. Stöð 2 verður þá með beina útsendingu frá París í kvöldfréttatímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×