Erlent

Danir ætla að banna blæjur

Óli Tynes skrifar
Múslimakona í búrka.
Múslimakona í búrka.

Danska ríkisstjórnin vill setja lög sem gera atvinnurekendum kleift að banna múslimakonum að ganga með slæður eða búrka í vinnunni. Kveikjan að þessu er að barnfóstra í Óðinsvéum neitaði að taka af sér slæðuna við gæslu barna. Bæjarstjórnin þar leitaði til stjórnvalda þar sem hún var ekki viss um að hún hefði heimild til þess að úrskurða í málinu.

Carina Christensen, fjölskylduráðherra sagði í fyrstu að ráðuneyti hennar myndi ekki skipta sér af málinu. Viðbrögð annarra stjórnarþingmanna voru svo hörð að hún sá sig um hönd.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra sagði til dæmis að búrka klæðnaður ætti ekki heima í barnagæslu eða öðrum umönnunarstörfum. Hann sagði að ríkisstjórnin myndi að sjálfsögðu sjá til þess að sett væru lög sem gerðu bæjarstjórninni í Óðinsvéum kleift að banna blæjur.

Allir flokkar á danska þinginu verðast vera þessu sammála. Þannig sagði talsmaður Rauð-grænu samfylkingingarinnar, sem er lengst til vinstri, að þetta snerist ekki um sér meðferð eða trúarbrögð. Það sé mikilvægt í umönnun barna að þau geti séð andlitstjáningu þeirra sem annast um þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×