Erlent

Hugsanlega boðað til kosninga

Guðjón Helgason skrifar

Svo gæti farið að boðað yrði til þingkosninga í Tyrklandi á næstu dögum, en stjórnlagadómstóll þar í landi úrskurðaði í dag að atkvæðagreiðsla þingsins um skipan nýs forseta væri ógild. Loftið í Tyrklandi er lævi blandið vegna málsins og óeirðir blossuðu upp í Istanbúl í dag.

Stjórnarandstæðingar greiddu ekki atkvæði um forseta fyrir helgi og skutu málinu til dómstólsins. Deilt er um Abdullah Gul, dómsmálaráðherra, sem sækist eftir embættinu. Margir Tyrkir óttast að verði hann fyrir valinu verði skilin milli stjórnmála og trúarbragða í Tyrklandi óskýrari. Gul er frambjóðandi stjórnarflokks Erdogans forsætisráðherra.

Þing kýs forseta. Fái frambjóðandi ekki 2/3 atkvæða í tveimur umferðum er kosið á ný tvívegis og þarf þá einfaldan meirihluta. Ef engin frambjóðandi fær hann þarf að kjósa nýtt þing. Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að það verði gert nú þegar þar sem hún tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslunum. Önnur atvkæðagreiðslan var fyrirhuguð á morgun en nú síðdegis var ákveðið að fresta henni. Stjórnarflokkarnir ætla þó að halda málinu til streitu.

Stjórnmálaskýrendur segja Erdogan hafa tvo leiki í stöðunni. Hann geti valið annan frambjóðanda en Gul eða boðað til kosninga. Telja margir síðari kostinn líklegri en fyrst muni forsætisráðherrann reyna hvað hann geti til að forðast það.

Loftið er lævi blandið í Tyrklandi þessa dagana og var það augljóst þegar til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í Istanbúl í dag. Forkólkfar verkalýðsfélaga höfuð komið saman við Taksim-torg í miðborginni til að minnast þeirra rúmlega þrjátíu sem féllu þegar byssumenn skutu þar á kröfugöngu fyrir þrjátíu árum. Minningarathöfn leystist upp í mótmæli þar sem lögregla beitti vatnsþrýstibyssum og táragasi. Lögregla segir suma mótmælendur hafa verið vopnaða hnífum, byssum og eldsprengjum. Fjölmargir mótmælendur voru handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×