Erlent

Margir mótmælendur handteknir í Istanbúl

Guðjón Helgason skrifar

Tyrkneska lögreglan hefur handtekið mörg hundruð mótmælendur eftir að til átaka kom í miðborg Istanbúl í morgun. Vinstrimenn höfuð komið þar saman til að minnast blóðbaðs í borginni þann fyrsta maí fyrir þrjátíu árum.

Það var þennan dag árið 1977 sem byssumenn skutu á kröfugöngu sem fór friðsamlega um götur Istanbúl. Rúmlega þrjátíu týndu lífi. Flestir þeirra tróðust undir þegar öngþveiti skapaðist um leið og skotið var á hópinn.

Þessa óhæfuverks vildu verkalýðsleiðtogar minnast á Taksim-torgi í miðborg Istanbúl í dag. Yfirvöld veittu leyfi fyrir fámennri minningarathöfn en það yrði í fyrsta sinn sem slíkt yrði leyft á torginu síðan herinn rændi völdum í Tyrklandi 1980.

Spenna er mikil í landinu vegna deilna um val á næsta forseta. Abdullah Gul, utanríkisráðherra, sækist eftir embættinu og óttast margir Tyrkir að ef hann komist til valda verði minni skil milli stjórnmála og trúarbragða í landinu.

Herinn hefur hótað afskiptum og stjórnlagadómstóll tekur nú fyrir kæru stjórnarandstöðunnar sem vill að boðað verði þegar til þingkosninga og síðan verði valinn nýr forseti.

Uppúr sauð í morgun þegar minningarathöfnin hófst og 580 mótmælendur voru handteknir. Að sögn lögreglu voru sumir þeirra vopnaðir byssum, hnífum og eldsprengjum. Táragas var notað til að dreifa mannfjöldanum. Beinar útsendingar sjónvarpsstöðvanna voru bannaðar frá torginu um tíma.

Óttast er að til frekari átaka kokmi í Istanbúl og á fleiri stöðum í Tyrklandi í dag. Hlutum Instanbúl hefur verið lokað fyrir umferð vegna þessa í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×