Erlent

Illa ígrundað stríð

Óli Tynes skrifar
Ísraelskir hermenn í Líbanon í ágúst á síðasta ári.
Ísraelskir hermenn í Líbanon í ágúst á síðasta ári.

Forsætisráðherra Ísraels er harkalega gagnrýndur í skýrslu rannsóknarnefndar sem fjallaði um stríðið gegn Hisbolla í Líbanon, á síðasta ári. Ehud Olmert er sagður hafa hrundið stríðinu af stað án þess að hafa nokkra ígrundaða áætlun um framgang þess. Olmert hefur enga reynslu sem hershöfðingi, og það sem Ísraelum finnst jafnvel enn verra; það hefur varnarmálaráðherrann ekki heldur. Ísraelskir fjölmiðlar segja að þar leiði haltur blindan.

Flestir forsætisráðherrar Ísraels og allir varnarmálaráðherrar til þessa, hafa verið reyndir hershöfðingjar.

Stríðið í Líbanon stóð í 34 daga. Ísraelar beittu þar landher sínum flugher og flota, en tókst ekki að brjóta Hisbolla á bak aftur. Skæruliðarnir skutu 4000 eldflaugum á Ísrael og ein milljón manna flúði heimili sín undan flaugunum.

Í stríðinu féllu 159 Ísraelar; 117 hermenn og 41 óbreyttur borgari. Í Líbanon féllu um 1200 manns, þar af 270 skæruliðar. Hitt voru óbreyttir borgarar. Olmert hefur lýst því yfir að hann muni ekki segja af sér vegna skýrslunnar. Óvíst er hvort honum tekst að standa við það.

Í ísraelsku rannsóknarnefndinni sátu tveir dómarar og þrír hershöfðingjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×