Erlent

Grunaður um að hafa ráðist á 101 gamla konu

Guðjón Helgason skrifar

Lögreglan í New York yfirheyrir nú fjörutíu og fjögurra ára mann sem er grunaður um að hafa barið og síðan rænt hundrað og eins árs gamla konu í síðasta mánuði. Árásin náðist á myndband í eftirlitsmyndavél og var það birt í fréttum.

Þar má sjá hvar Rose Morat er á leið úr fjölbýlishúsinu þar sem hún býr og ætlar til kirkju. Bófinn stendur hjá henni og lætur sem hann ætli að hjálpa Rose. Skiptir engum togum að hann slær hana þrívegis og stelur af henni veskinu. Í því voru jafnvirði rúmlega tvö þúsund króna og húslyklar.

Kinnbein Rose brákaðist í árásinni og dvaldi hún um tíma á sjúkrahúsi. Lögregla yfirheyrir nú mann sem passar við mynd og lýsingu af árásarmanninum. Sá var handtekinn þegar krakkpípa fannst á honum. Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist á Rose og tvær eldri konur til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×