Erlent

Harry hótar að hætta í hernum

Óli Tynes skrifar
Harry prins.
Harry prins. MYND/AP

Breska herstjórnin er orðin hikandi við að senda Harry prins til Íraks með hersveit sinni. Síðasti mánuður var sá blóðugasti sem breskir hermenn hafa upplifað í Írak, síðan innrásin var gerð árið 2003. Prinsinn er sagður hafa hótað því að hætta í hernum, ef hann verði ekki sendur. Harry er þriðji í erfðaröðinni til bresku krúnunnar.

Það er þó ekki erfðaröðin sem veldur hernum áhyggjum, enda hefð fyrir því að prinsar fari í stríð. Andrew prins, frændi Harrys tók þátt í Falklandseyjastríðinu sem þyrluflugmaður. Hann hafði meðal annars það hlutverk að fljúga þyrlu sinni í veg fyrir eldflaugar sem skotið yrði á skip hans. Til þess kom þó ekki. Andrew kom heill heim aftur, og þótti hafa staðið sig mjög vel.

Stríðið í Írak er hinsvegar allt annars eðlis. Varnarmálaráðuneytið óttast að hryðjuverkamenn þar muni gera allt sem þeir geta til þess helst að ræna prinsinum, eða  drepa ella hann. Harry sagði hinsvegar í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru að hann hefði ekki lagt það á sig að ganga í gegnum hina gríðarlega ströngu þjálfun í Sandhurst herskólanum til þess að "sitja heima á rassgatinu meðan félagar mínir eru sendir til Íraks," eins og hann orðaði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×