Erlent

Einn lést og 60 særðust í óeirðum í Tallin

Maður var stunginn til bana og hátt í sextíu manns særðust í miklum óeirðum í Tallinn í Eistlandi í gærkvöldi. Átökin brutust út þegar hópur fólks mótmælti niðurrifi sovésks minnismerkis um afrek Rauða hersins í seinni heimsstyrjöldinni, sem staðið hefur í miðborg Tallinn í áratugi.

Eistnesk stjórnvöld ákváðu að tími væri til kominn að fjarlægja minnismerkið, sem þau telja minna á kúgunina sem þjóðin mátti þola á meðan Eistland var hluti af Sovétríkjunum. Eistar eru 1,3 milljónir og þar af er rúmur þriðjungur af rússneskum uppruna. Hundruð þeirra höfðu gengið um götur og mótmælt friðsamlega, en í þeirra augum er minnismerkið tákn um hugrekki hermanna Rauða hersins sem létu lífið í baráttu við nasista.

Sovétmenn innlimuðu Eystrasaltslöndin Eistland, Lettland og Litháen árið 1940, nasistar náðu þeim á sitt vald ári síðar, en sovéski herinn náði yfirhöndinni á ný 1944 og voru löndin hluti Sovétríkjanna fram á tíunda áratug síðustu aldar.

Þegar ljóst þótti að ákvörðuninni yrði ekki haggað, breyttust friðsöm mótmæli rússnesku Eistanna í óeirðir þar sem einn maður lést, tugir særðust og þrjú hundruð manns voru handteknir. Mótmælendur kveiktu í verslunum og rændu þar og rupluðu, mölvuðu rúður og fleygðu öllu lauslegu í lögregluna.

Rússnesk stjórnvöld eru ævareið yfir framkvæmdinni og hafa ítrekað þrýst á Eista um að hætta við.Eistnesk stjórnvöld hafa sagt að þau vilji rannsaka líkamsleifarnar sem hvíla í gröfinni undir minnismerkinu og síðan færa minnismerkið á annan stað, sem eigi eftir að ákveða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×