Erlent

Aukið eftirlit með oíu- og gasflutningum umhverfis Ísland

Eftirlit með flutningum á olíu og gasi á svæðinu umhverfis Ísland verður stóraukið samkvæmt samningi um samstarf í varnar- og öryggismálum, sem utanríkisráðherrar Íslands og Norges undirrituðu í Ósló í dag. Einnig er gert ráð fyrir að Íslendingar beri hundruð milljóna króna kostnað af

staðsetningu og æfingum norskra hermanna á Íslandi.

Valgerður Sverrisdottir, utanrikisráðherra, undirritaði, ásamt Jonas Gahr Støre, norskum starfsbróður sínum, samning við Norðmenn um náið samstarf í öryggis- og varnarmálum á friðartímum. Valgerður undirritaði einnig yfirlýsingu um varnarsamstarf við Dani. Með samningnum við Norðmenn er verið að efla tvihliða samstarf rikjanna a friðartímum.

Upplýsingaflæði verður aukið milli landanna og tengsl lögreglu- og öryggismálayfirvalda á Íslandi og í Noregi efld. Markmiðið með samningnum er að stuðla að varanlegum stöðugleika og öryggi á svæðinu umhverfis Ísland, en utanríkisráðherra segir þjóðirnar hafa margs konar sameiginlegra hagsmuna að gæta. Samningurinn gerir Norðmönnum kleift að stunda heræfingar á Íslandi og senda herþotur, þyrlur og varðskip til landsins.

Samkvæmt samningnum verða varnir Íslands á friðartímum tryggðar. Norskar herþotur munu sjá um eftirlit í lofthelgi Íslands. Íslendingar munu bera kostanð af staðsetningu og æfingum norskra hermanna hér á landi. Valgerður segir ekki nákvæmlega vitað hve mikill kostnaðurinn verði enda ekki vitað hve samvinnan verði mikil, samningurinn sé opinn. Kostnaðurinn gæti þó hugsanlega hlaupið á hundruðum milljóna króna.

Valgerður segir samninginn gefa tækifæri til að auka eftirlit með olíu- og gasflutningum á svæðinu umhverfis Ísland. Það sé stórmál fyrir Íslendinga að þarna er verið að flytja mikið magn af olíu og gasi og gríðarlega mikilvægt að eiga þetta samstarf við nágrannaþjóðirnar.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, segir samninginn við Ísland mikilvægan. Hann gerir þjóðunum kleift að eiga náið samráð og samstarf í tengslum við öryggis-, varnar- og björgunarmál á hafsvæðinu við Ísland. Norski herinn fái aðstöðu til æfinga á Keflavíkurflugvelli og þar verði norskar herþotur staðsettar í nokkrar vikur á ári og geti stundað þaðan heræfingar ásamt öðrum bandamönnum eða bandalagsþjóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×