Erlent

Ný eyja fannst við strendur Grænlands

Óli Tynes skrifar

Ný eyja er fundin við austurströnd Grænlands. Hún er margra kílómetra löng og er í laginu eins og hönd með þrjá fingur. Eyjan er um 640 kílómetra norðan við heimskautsbaug. Hún er komin í ljós vegna bráðnunar grænlensku íshellunnar.

Eyjan liggur nú alveg aðskilin frá strönd Grænlands, umlukin sjó á alla vegu. Á henni eru há og brött fjöll, og efst á þeim má sjá leifar af ísnum sem eitt sinn huldi hana alla, sem og sundið sem nú er á milli hennar og grænlenska meginlandsins.

Þessi nýi landafundur er vísindamönnum ekkert fagnaðarefni, þar sem hann bendir til þess að grænlenska íshellan bráðni jafnvel enn hraðar en gert hefur verið ráð fyrir. Reiknað hefur verið út að ef íshellan öll bráðnar mun yfirborð sjávar hækka um rúma sjö metra. Það myndi færa margar stórborgir í kaf og jafnvel heilu löndin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×