Erlent

Kosningar í skugga ofbeldis

Nígeríumenn gengu að kjörborðinu í dag og kusu sér forseta, en synd væri að segja kosningarnar hefðu farið vel fram. Tugir hafa látist í ofbeldisverkum í tengslum við þær og framkvæmdin virðist hafa verið að flestu leyti meingölluð.

Eftirlitsmenn á vegum Evrópusambandsins segja að kosningarnar í dag hafi verið litlu skárri en þingkosningarnar sem fram fóru um síðustu helgi en þær einkenndust af miklum vandræðagangi. Þannig skiluðu kjörseðlar sér ekki til landsins fyrr en í gærkvöld en þá varð að prenta í Suður-Afríku vegna aðstæðna í Nígeríu. Því skiluðu kjörgögn sér seint og illa í kjördeildir, sérstaklega í afskekktari héruðum þessa fjölmennasta lands álfunnar. Þrátt fyrir að kjörfundur hafi víða hafist seint var ekki orðið við beiðnum um að framlengja hann til morguns. Nú undir kvöld hafði flestum kjörstöðum verið lokað. Undanfarna daga hafa tugir látið lífið í ofbeldisverkum vegna kosninganna og í morgun var gerð misheppnuð tilraun til að sprengja upp skrifstofur aðalkjörstjórnarinnar í höfuðborginni Abuja með því að aka að þeim olíubíl alsettum hvellhettum. Þetta er í fyrsta sinn sem Nígeríumenn kjósa sér forseta sem tekur við af öðrum þjóðkjörnum forseta og er vonast til að úrslitin í þessum umdeildu kosningum liggi fyrir á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×