Erlent

Átök blossa upp á ný

Bardagar hafa blossað upp á ný í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu, en þrjátíu manns hafa látið þar lífið í ofbeldisverkum undanfarins sólarhrings. Sameinuðu þjóðirnar segja algert neyðarástand ríkja meðal borgarbúa.

Átakahrinan sem hófst í fyrrakvöld er sögð í það minnsta jafn hörð og bardagarnir sem geisuðu í borginni í lok síðasta mánuðar en þá er talið að þúsund manns hafi látið lífið. Mannskæðasta ofbeldisverkið var unnið í gær þegar sjálfsmorðsárás var gerð á höfuðstöðvar eþíópíska setuliðsins, sem berst við hlið hins veikburða stjórnarher landsins. Að minnsta kosti 21 lést í þeirri árás. Áður óþekktur hópur íslamista segist hafa staðið á bak við tilræðið en enn á eftir að staðfesta hvort yfirlýsing þeirra sé sönn. Í kjölfar árásarinnar var helstu útgönguleiðum úr höfuðborginni lokað. Talið er að á þriðja hundrað þúsund íbúa Mógadisjú hafi flúið borgina frá því að átökin í marslok hófust og að sögn sjónarvotta streymir fólkið ennþá burt. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna í Sómalíu segja hreint vatn og mat af skornum skammti í borginni og þegar hafi hundruð manna dáið úr sjúkdómum á borð við kóleru. Engu að síður fullyrti Abdullah Yusuf forseti landsins í samtölum við blaðamenn í morgun að ástandið í Mógadisjú færi nú batnandi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×