Erlent

Andúð á ríkum ungmennum sögð ástæðan

Andúð á auðugum ungmennum er sögð rót fjöldamorðanna óhugnanlegu í Blacksburg í Virginíu í gær. 23 ára gamall suðurkóreskur maður stráfelldi þá 32 samnemendur sína og starfsmenn við aðalháskóla borgarinnar. Íslensk kona sem stundar nám við skólann segir mikinn samhug hafa ríkt á meðal nemenda skólans í dag.

Íbúar Blacksburg eru enn í losti eftir harmleik gærdagsins þegar 32 nemendur nemendur og kennarar við Virginia Tech-háskólans féllu fyrir hendi morðingja. Enn er verið að bera kennsl á fórnarlömbin en greint hefur verið frá nöfnum sumra þeirra. Í dag upplýsti lögreglan hver hefði staðið fyrir þessari mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna. Maðurinn hét Cho Seung-Hui og var 23 ára gamall Suður-Kóreumaður. Hann stundaði enskunám við skólann.

Cho lét til skarar skríða tvívegis og eftir seinni árásina svipti hann sig lífi. Byssur sem fundust á vettvangi seinni árásanna virðast einnig hafa verið notaðar við þá fyrri en samt vill lögreglan ekki útiloka að Cho hafi átt sér vitorðsmann.

Cho virðist hafa verið mikill einfari og því er litlar upplýsingar um persónu hans að hafa. Fréttamiðlar hafa greint frá því að í fórum hans hafi fundist bréf þar sem hann lýsti andúð sinni á ríkum ungmennum og hún hafi knúið hann til illvirkisins.

Engin kennsla var í skólanum í dag, í staðinn hafa nemendur þyrpst þar til fyrirbænastunda og sýnt hver öðrum stuðning. Dagmar Kristín Hannesdóttir, doktorsnemi við skólann, segir mikla samstöðu hafa verið ríkjandi á meðal stúdenta. Nú fyrir stundu hófst sérstök minningarsamkoma fyrir nemendur skólans sem Dagmar bjóst við að sækja. Á meðal viðstaddra eru George Bush forseti Bandaríkjanna og Laura kona hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×