Erlent

Hrottalegasta fjöldamorð í sögu Bandaríkjanna

Jónas Haraldsson skrifar
Nemendur sjást hér ferjaðir úr Norris Hall byggingunni eftir seinni skotárásina.
Nemendur sjást hér ferjaðir úr Norris Hall byggingunni eftir seinni skotárásina. MYND/AP
Hrottalegasta fjöldamorð í sögu Bandaríkjanna var framið í tækniháskólanum í Virginíu í gær. 33 létu lífið, þar á meðal byssumaðurinn, og 15 særðust.

Skotárásirnar voru tvær. Sú fyrri átti sér stað í heimavist klukkan korter yfir sjö um morgunin. Talið er að ungur maður hafi labbað inn og leitað að kærustunni sinni. Hann hafi síðan rifist við hana og skotið hana og aðstoðarmann á heimavistinni til bana. Lögregla kom fljótt á staðinn og taldi að maðurinn hefði yfirgefið skólalóðina. Henni var því ekki lokað heldur aðeins umræddri heimavist. Lögreglan hóf þá að rannsaka morðin tvö og taldi þau vera vegna heimiliserja.

Tveimur tímum síðar hófst skothríð í verkfræði- og vísindabyggingu skólans, sem er um kílómetra í burtu frá heimavistinni. Þar lét 31 lífið og þar á meðal skotmaðurinn. Hann hafði lokað inngöngum í bygginguna með keðjum áður en hann gekk um og skaut að því er virðist án tilefnis og ástæðu á fólk í skólastofum. Hann var vopnaður tveimur skammbyssum. Lögregla kom á staðinn og þurfti að brjótast inn í bygginguna. Hún elti byssumanninnn uppi en kom að honum látnum. 15 að auki særðust í seinni árásinni.

Lögreglan segir að lýsingum vitna á fyrri og þeim sem fannst látinn á vettvangi seinni árásinnar beri ekki alveg saman. Hún telur sig þó vita hver seinni skotmaðurinn er en hefur ekki enn viljað skýra frá nafni hans. Lögreglan var harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín við fyrstu árásinni og að hafa ekki lokað skólalóðinni strax. Hún sagði þó að um tuttugu og sex þúsund manns væru á skólalóðinni, auk starfsfólks, og að erfitt væri að gera öllum viðvart í einu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×