Innlent

Krefjast 10 milljóna króna í skaðabætur

Skipuleggjendur klámráðstefnunnar, sem átti að halda hér á landi krefja Hótel Sögu um rúmlega 10 milljónir króna í skaðabætur fyrir að meina þeim um gistingu. Náist ekki samningar milli hótelsins og skipuleggjenda verður málið rekið fyrir dómstólum.



Oddgeir Einarsson, lögmaður skipuleggjenda klámráðstefnunnar Snowgathering birti forsvarsmönnum Hótel Sögu, kröfuna síðastliðinn föstudag. Að sögn hans verður hótelinu gefinn fjórtán daga frestur til að ná samningum. Náist þeir ekki fari málið fyrir dómstóla. Oddgeir vildi ekki gefa upp hversu há krafan væri en samkvæmt heimildum fréttastofu hljóðar hún upp á tæpar 10 milljónir króna. Oddgeir segir kröfuna byggða á flugförum til landsins sem voru keypt fyrir hátt á fimmta tug manna, launagreiðslum og öðrum útgjöldum í aðdraganda ráðstefnunnar.

 

Hrönn Greipsdóttir hótelstjóri á Hóteli Sögu vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu og segir lögfræðinga hótelsins vera fara yfir kröfuna. Klámráðstefnan var fyrirhuguð í mars síðastliðnum og hugðust 150 manns að koma til landsins. Ekkert varð af henni eftir að Hótel saga ákvað að vísa hópnum frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×