Erlent

Ekki fer ég til Moskvu

Óli Tynes skrifar
Frá Moskvu.
Frá Moskvu.

Tugir rússneskra andófsmanna sem ætluðu að taka þátt í mótmælaaðgerðum í Moskvu, á sunnudaginn, hafa verið handteknir, að sögn skipuleggjenda. Stjórnvöld hafa bannað mótmælafundinn. Það eru samtökin Hitt Rússland, sem standa fyrir mótmælunum og talsmaður þeirra segir að þeim verði haldið til streitu, þrátt fyrir handtökurnar.

Talsmaðurinn segir að búist sé við 5000 þáttakendum í mótmælunum á sunnudag. Þeir komi víðsvegar að úr Rússlandi. Nú sé lögreglan hinsvegar farin að handtaka fólk, og auk þess banka upp hjá þeim sem búi utan höfuðborgarinnar og láta þá undirrita loforð um að fara ekki til Moskvu. Ástæður fyrir handtökunum eru sagðar vera af ýmsu tagi, meðal annars að blóta opinberlega.

Samtökin Hitt Rússland njóta ekki mikils stuðnings í Rússlandi, þar sem Vladimir Putin, forseti, nýtur mikilla vinsælda. Einn af aðalmönnum samtakanna er skákmeistarinn Garry Kasparov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×