Erlent

Malasía hatar Jeremy Clarkson

Óli Tynes skrifar
Jeremy Clarkson þar sem honum líður best; undir stýri á rauðum sportbíl.
Jeremy Clarkson þar sem honum líður best; undir stýri á rauðum sportbíl.

Það væri óráðlegt fyrir Jeremy Clarkson að fara til Malasíu, á næstunni. Clarkson stýrir hinum geysivinsæla bílaþætti Top Gear á sjónvarpsstöðinni BBC. Ástæðan fyrir hatri Malasíubúa á Jeremy er sú að hann tók í þætti sínum fyrir bílinn Perodua Kelesa, sem er framleiddur í Malasíu. Mamma mía.

Eftir reynsluakstur réðst hann á bílinn með sleggju og barði hann sundur og saman. Svo lét hann hífa hann upp í krana og sprengdi hann í tætlur með dýnamíti. Líklega hefði það dugað til þess að Malasíubúar vissu hvað hann var að fara.

En Clarkson lét sér það ekki nægja. Hann bætti því við að þetta fyrirbæri hlyti að vera smíðað af frumskógarfólki sem notaði pálmablöð fyrir skó. Málið hefur verið tekið fyrir á þinginu í Malasíu. Og þar var EKKI talað um að gera Jeremy Clarkson að heiðursborgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×