Innlent

Mikil fákeppni á íslenskum farsímamarkaði

Forstjóri Póst-og fjarskiptastofnunar segir mikla fákeppni á íslenskum farsímamarkaði hafa orðið til þess að tíðniheimildir fyrir farsíma voru boðnar út. Verð á farsímanotkun sé hærra hér á landi en hjá hinum norðurlöndunum. Tvö svissnesk fyrirtæki áttu besta tilboðið.

Póst- og fjarskiptastofnun veitir á næstu dögum tíðniheimildir til tveggja nýrra farsímaneta. Fjögur símafyrirtæki hafa sóst eftir heimild, tvö svissnesk og tvö íslensk. Svissnesku símafyrirtækin Amitelo og Bebbicell áttu bestu tilboðin. Þau buðu mestu útbreiðsluna á sem skemmstum tíma. Amitelo bauð 95 % útbreiðslu á landinu eftir þrjú ár og Bebbicell tæplega 94% útbreiðslu eftir þrjú ár. Þetta er aðeins minni útbreiðsla en Síminn og Vodafone en þeirra símkerfi eru með 98 % útbreiðslu á landinu.

Íslensku fyrirtækin sem sóttu einnig um voru IP-fjarskipti og Núll níu Mobile. Hrafnkell Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir markmiðið með útboðinu að herða samkeppni á farsímamarkaði hér á landi. Hann segir að í samnorrænni skýrslu hafi komið fram að farsímanotkun væri að aukast hér á landi en annars staðar og verðin hækka að sama skapi. Verðsamkeppni hér á landi sé ekki í samræmi við það sem sjáist víða erlendis.



Fái svissnesku símafyrirtækin tíðniheimildirnar þurfa þau að setja upp sendistöðvar á höfuðborgarsvæðinu og um allt land. Hrafnkell segir kostnaðinn við það geta hlaupið á hundruðum milljóna króna. Útbreiðslan sem fyrirtækin bjóði skipti mestu máli við mat umsækjenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×