Erlent

Þrýstingurinn á Írana vex

Evrópusambandið og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafa skorað á Írana að sleppa fimmtán breskum sjóliðum sem þeir hafa í haldi sínu. Einn þeirra kom fram á íranskri sjónvarpsstöð í dag og baðst afsökunar á að hafa siglt inn í íranska landhelgi.

Sjóliðinn, sem sagður er heita Nathan Thomas Summers, kom fram á al-Alam sjónvarpsstöðinni í morgun ásamt tveimur félögum sínum af eftirlitsbátnum sem Íranar stöðvuðu fyrir viku. Fimmtán skipverjar eru í haldi Írana en þeim er gefið að sök að hafa siglt inn í íranska landhelgi. Bretar fullyrða aftur á móti að báturinn hafi verið á írösku hafsvæði. Í útsendingunni í morgun kvaðst Summers gera sér grein fyrir því að þetta væri í annað skipti frá árinu 2004 sem breskt herskip færi inn í íranska landhelgi í leyfisleysi og bæðist hann því innilegrar afsökunar á atvikinu.

Breska ríkisstjórnin er æf yfir framkomu Írana í deilunni eins og glögglega mátti sjá á Tony Blair þegar hann ræddi við blaðamenn í dag.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu einróma á fundi sínum í Brimarborg í Þýskalandi í dag að skora á Írana að láta sjóliðana tafarlaust og án skilyrða úr haldi. Þá lýsti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld yfir áhyggjum sínum vegna málsins og hvatti á deilendur að höggva á hnútinn sem fyrst og frelsa um leið sjóliðana fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×