Erlent

Íranar sýna myndband af sjóliðum

Jónas Haraldsson skrifar
Íranska ríkissjónvarpið sýndi í dag viðtal við einn af sjóliðunum 15 sem handteknir voru á sunnudaginn var. Í því segir sjóliðinn, Faye Turney, að þau hafi augljóslega verið á írönsku hafsvæði en bresk stjórnvöld hafa neitað því harðlega.

Hún sagði einnig að þeir sem hefðu handtekið þau væru vinsamlegir, hugulsamir og að allir sjóliðarnir væru heilir á húfi. Sjóliðarnir sjást síðan gæða sér á mat. Breska utanríkisráðuneytið hefur fordæmt myndbandið og sagt algjörlega óásættanlegt að það hafi verið sýnt. Íranar hafa sagt að þeir muni sleppa konunni sem talað er við á myndbandinu á næstu dögum.

Fyrr í dag tilkynntu Bretar að þeir myndu hætta öllum samskiptum við Írana þangað til að deilan um sjóliðana væri leyst. Þeir sýndu líka gögn, sem Írakar hafa staðfest, sem sanna að sjóliðarnir voru á írösku hafsvæði. Íranar hafa hins vegar sýnt eigin gögn sem eiga að sanna að sjóliðarnir hafi verið á írönsku hafsvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×