Erlent

Stjórnarskrárbreytingar samþykktar

MYND/AFP
Umdeildar breytingar á stjórnarskrá Egyptalands voru samþykktar með 75,9% atkvæða. Talsmenn stjórnvalda skýrðu frá þessu í dag. Þeir sögðu jafnframt að kjörsókn hefði verið 27% en sumir sjálfstæðir eftirlitshópar sögðu að kjörsókn hefði ekki verið meiri en fimm prósent.

Aðalstjórnarandstöðuflokkur Egyptalands sniðgekk kosningarnar og gagnrýndi harkalega þær breytingar sem voru síðan samþykktar. Háttsettur maður í Bræðralagi múslima sagði að úrslitin væru fölsuð.

Á meðal breytinga sem að verða nú er að bannað verður að stofna trúarlega stjórnmálaflokka og völd lögreglunnar verða aukin til muna. Stjórnvöld segja breytingarnar styrkja lýðræðið í landinu en andstæðingar segja að nú verði auðveldara að hagræða úrslitum kosninga.

Stjórnvöld hafa tilkynnt að frekari breytinga sé að vænta. Þau voru farin að fagna úrslitum og góðri kjörsókn áður en ljóst var hvernig hafði farið. Þau ætla sér að auka völd lögreglunnar til þess að geta betur barist gegn hryðjuverkamönnum. Einnig hefur verið komið í veg fyrir að fulltrúar dómskerfisins fylgist með framkvæmd kosninga en stéttarfélag dómara í Egyptalandi hefur fordæmt kosninguna og neitað að viðurkenna úrslit hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×