Erlent

Réttur þriðjungur Bandaríkjamanna styður stríðið í Írak

Íraksstríðinu var mótmælt víða í Bandaríkjunum í dag, þar á meðal í Bangor í Maine-ríki.
Íraksstríðinu var mótmælt víða í Bandaríkjunum í dag, þar á meðal í Bangor í Maine-ríki. MYND/AP

Rétt liðlega þriðjungur Bandaríkjamanna styður hernaðinn í Írak samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem bandaríska fréttastöðin CNN birti í dag en hún var gerð í tilefni þess að fjögur ár eru liðin frá því að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak ásamt stuðningsmönnum sínum og steyptu Saddam Hussein af stóli.

Könnunin, sem var gerð dagana 9.-11. mars, sýnir að 35 prósent Bandaríkjamanna eru öruggir með stríðið en 83 prósent voru sömu skoðunar við upphaf stríðsins. Þá eru aðeins 30 prósent stolt af stríðinu en fyrir fjórum árum voru ríflega helmingi fleiri á þeirri skoðun.

Þá óttast 33 prósent stríðið og 55 prósent hafa áhyggjur af því en það eru svipaðar tölur og fyrir fjórum árum. Sem fyrr segir styðja 35 prósent Bandaríkjamanna stríðið sem er rúmum 20 prósentustigum minna en fyrir þremur árum.

Könnun CNN bendir einnig til þess að stuðningur við hernaðaraðgerðir í Afganistan fari minnkandi en rétt rúmur helmingur styður aðgerðirnar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×