Erlent

Stálu 5 hundum

Fjölskylda, í Los Angeles, varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu í gær þegar vopnaðir glæpamenn réðust inn á heimili hennar og rændu þaðan fimm hundum, þar af fjórum hvolpum sem voru til sölu. Atgangurinn náðist allur á myndband.

Mennirnir tveir knúðu dyra á heimili Lee-fjölskyldunnar í gær. Þeir sögðust hafa áhuga á fjórum Yorkshire terrirer hvolpum sem fjölskyldan hafði auglýst til sölu. Þegar þeir komu inn skipti engum togum að þeir drógu upp byssur, ógnuðu fjölskyldumeðlimum og tóku svo til við að troða hvolpunum í poka. Eltingaleikur þeirra við ferfætlinganna var allur festur á filmu enda öryggismyndavél í gangi í húsinu.

Ekki létu þeir nægja að ræna hvolpunum því þeir tóku einnig fullorðna terrier tík fjölskyldunnar, Tan-ja. Lögregla segir Lee-fjölskyldunni mest umhugað um örlög hennar enda hafi hún verið hluti af fjölskydlunni í rúmlega þrjú ár.

Hvolparnir eru hins vegar verðmætari í peningum, samanlagt metnir á jafnvirði tæplega sjö hundruð þúsund króna.

Lögregla segir engan úr Lee-fjölskyldunni hafa sakað í árásinni og telur víst að auðvelt reynist að finna bófana. Paul Vernon, hjá lögreglunni í Los Angeles, segir þetta eina þá bestu upptöku sem hann hafi séð úr öryggismyndavél. Á henni sjáist þegar ráðist sé inni húsið. Byssum sé veifað, fólkið tekið í gíslingu og hundunum síðan stolið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×