Innlent

Áætlun í jafnréttismálum endurskoðuð

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra lagði tillöguna fram.
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra lagði tillöguna fram. MYND/Félagsmálaráðuneytið
Kynbundinn launamunur er eitt af helstu áhersluatriðum í endurskoðaðri áætlun í jafnréttismálum. Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja tillöguna fram til þingsályktunar. Tillagan var unnin í félagsmálaráðuneytinu ásamt skýrslu um stöðu og horfur í jafnréttismálum. Tölur Hagstofu Íslands og könnun leiða í ljós að stöðnun hefur ríkt varðandi launamun undanfarin ár. Því er mikil áhersla lögð á þetta atriði í tillögunni. Tillagan byggir á jafnréttisáætlun sem var lögð fram árið 2004 og gildir til loka maí árið 2008. Áherslurnar eru hinar sömu en fylgt er eftir og metin staða verkefna sem unnin hafa verið, verkefnum bætt inn þar sem við á og felld út ef þeim er lokið. Einnig hefur tímaáætlunum einstakra verkefna verið breytt. Áfram þykir nauðsynlegt að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið daglegu starfi allra ráðuneyta. Samþætting er þó ekki markmið í sjálfu sér heldur jafnrétti kynjanna. Áhersla er á að jafna hlutföll kynja í nefndum ráðum og stjórnum á vegum ráðuneyta. Hlutur kvenna var 37 prósent árið 2005. Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið hafa aukið hlut kvenna í 40 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×