Innlent

Hvað gerir fyrirtæki samkeppnishæf?

Christian Ketels fjallar um lykilþætti í samkeppnishæfni fyrirtækja á ráðstefnunni á morgun.
Christian Ketels fjallar um lykilþætti í samkeppnishæfni fyrirtækja á ráðstefnunni á morgun.

Viðskiptafræðingar ætla að leita svara við spurningum um samkeppnishæfni fyrirtækja á ráðstefnu á Nordica hóteli á morgun, föstudag. Meðal spurninga sem settar verða fram eru vað ráði mestu um samkeppnishæfnina, hvaða máli skipti að fyrirtæki séu íslensk, hvað þurfi að gera til að efla samkeppnishæfni Íslands og hverjir eigi að taka þátt í því verkefni.

Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni er dr. Christian Ketels frá stofnun dr. Michaels E. Porters, Institute for Strategy and Competitiveness, við Harvard Business School. Hann fjallar um lykilþætti í samkeppnishæfni fyrirtækja í alþjóðlegum viðskiptum. Christian Ketels er meðal helstu sérfræðinga um samkeppnishæfni og samkeppnisaðferðir, sem og efnahagslega þróun þjóða, ríkja og svæða, að því er segir í fréttatilkynningu.

Ketels hefur sérstaklega skoðað Ísland í þessu samhengi og vann með Michael E. Porter að skýrslu um samkeppnishæfni Íslands sem kynnt var hér á landi í október síðastliðnum á ráðstefnu. Stjórnendur frá Landsbankanum, Actavis, Össuri og Exista fjalla einnig um samkeppnishæfni út frá reynslu fyrirtækjanna.

Í fjórum samhliða vinnustofum verður svo kafað dýpra í reynslu fyrirtækjanna fjögurra; Landsbankans, Actavis, Össurar og Exista, í ljósi framlagsins frá Christian Ketels. Viðskiptafræðingar MBA frá Háskóla Íslands leiða umræður og draga þær saman í lokin. Ráðstefnan fer fram á ensku en vinnustofurnar á íslensku. Skráning og nánari upplýsingar eru á www.mbahi.is og www.mba.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×