Innlent

Draga þarf lærdóm af könnuninni

Læra þarf af könnun sem sýnir að þriðjungur heyrnarlausra hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, að mati talskonu Stígamóta. Hún segir einnig þurfa að athuga með og ná til þeirra sem eru líkamlega og andlega fatlaðir.

Einn af hverjum þremur heyrnarlausum hefur verið beyttur kynferðislegu ofbeldi samkvæmt könnun sem Félag heyrnarlausra lét gera með stuðningi félagsmálaráðuneytisins. Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum segir niðurstöðu könnunarinnar því miður ekki koma á óvart. Þeir hópar sem erfiðar eiga með að leita sér hjálpar eða segja frá, virðast vera í meiri hættu á að vera beittir kynferðislegu ofbeldi. Þar er um að ræða börn, aldraða og líkamlega- og andlega fatlaða einstaklinga.

Nauðsynlegt er að læra af skýrslunni að mati Guðrúnar en hún telur slíkt hið sama geta átt við aðra hópa sem eiga erfitt með að ná til samtaka eins og Stígamóta.

Heyrnarlausir og heyrnarskertir hafa bæði leitað til Stígamóta með túlk og í gegnum netið en þannig geta samskipti farið fram án þess að þriðji einstaklingurinn sé viðstaddur. Eins er möguleg að samtal fari fram á tölvu þar sem ráðgjafi og fórnarlamb eru inni í sama herbergi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×