Innlent

Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon er látinn

Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon lést 77 ára að aldri.
Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon lést 77 ára að aldri.

Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Magnús Magnússon er látinn, 77 ára að aldri. Hann greindist með krabbamein í fyrra.

Magnús vann hjá breska sjónvarpinu BBC í tæp 40 ár. Þó að hann hefði alist upp í Skotlandi og átt heima þar alla ævi þá hélt hann íslenskum ríkisborgararétti og ferðaðist oft til Íslands.

Mark Thompson forstjóri BBC sagði um Magnús: "Fyrir milljónir áhorfenda þá var Magnús Magnússon hin eina sanna rödd og andlit BBC. Hugsanir okkar eru hjá fjölskyldu hans og allir hjá BBC sameinast þeim í söknuði."

Magnús Magnússon fæddist í Reykjavík, sonur hjónanna Sigursteins Magnússonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Hann flutti með foreldrum sínum til Skotlands aðeins níu mánaða að aldri. Hann stundaði framhaldsnám í íslenskum fornbókmenntum í Oxford og Kaupmannahöfn.

Magnús gekk til liðs við BBC árið 1964 sem þulur Tonight þáttarins. Hann stjórnaði spurningaþættinum Mastermind í 25 ár frá 1972 til 1997. Meðfram reglubundinni þáttargerð vann hann að sjónvarpsþáttum um sögu og fornleifafræði, meðal annars yfirgripsmiklum þáttum um víkingana.

Magnús fékk heiðursverðlaun íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar árið 2002 fyrir farsælt starf að dagskrárgerð fyrir sjónvarp í 40 ár.

Hann varð rektor Caledónian háskólans í Glasgow árið 2002. Magnús lætur eftir sig fjögur uppkomin börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×