Erlent

Hyggjast einkavæða olíuvinnsluna

Íraska ríkisstjórnin, með aðstoð bandarískra embættismanna, er sögð vinna að setningu laga sem kveða á um að olíuvinnsla í landinu verði einkavædd. Slík lög gætu fært vestrænum olíufélögum einkaleyfi á olíuvinnslu í áratugi.

Þetta er fullyrt í breska blaðinu Independent on Sunday í dag en blaðamenn þess segjast hafa séð lagafrumvarpið sem íraska ríkisstjórnin er talin ætla að leggja fyrir þingið á næstu dögum. Bandarískir embættismenn eru sagðir hafa unnið að frumvarpsgerðinni með Írökum.

Olíulindir Íraks voru þjóðnýttar árið 1972 en verði þetta lagafrumvarp að veruleika munu þær verða einkavæddar. Það þýðir að risaolíufélög á borð við BP, Shell og Exxon gætu fengið leyfi til olíuvinnslu í Írak til allt að þrjátíu ára og á meðan þau væru að greiða niður kostnaðinn við boranirnar fengju þau 75 prósent ágóðans af vinnslunni en Írakar aðeins fjórðung. Slíkt fyrirkomulag væri afturhvarf til gamalla tíma en langt er síðan Sádi-Arabar og Íranir, stærstu olíuframleiðendur Mið-Austurlanda, tóku stjórn olíuvinnslu sinna landa í eigin hendur.

Þessar fréttir, ef réttar eru, verða því án efa vatn á myllu þeirra sem á sínum tíma sögðu olíuhagsmuni raunverulega ástæðu innrásarinnar í Írak. Því harðneituðu ráðamenn að sjálfsögðu þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×