Erlent

Wielgus sagði af sér

Pólski biskupinn Stanislaw Wielgus sem vígja átti sem erkibiskup Varsjárborgar í dag hefur sagt af embætti eftir að í ljós kom að hann var á sínum tíma á mála hjá leynilögreglu kommúnista. Tilnefningin hans hefur af þeim sökum valdið miklum deilum í landinu.

Ákvörðun sína tilkynnti Wielgus skömmu fyrir kveðjumessu Jozef Glemps, fráfarandi erkibiskups, en þar átti að vígja hann til þjónustunnar. Benedikt páfi sextándi skipaði Wielgus í embættið á föstudaginn en fljótlega eftir að skipunin var kunngjörð greindu pólskir fjölmiðlar frá því að Wielgus hefði verið heimildarmaður leynilögreglunnar á tímum kommúnistastjórnarinnar. Meðal annars átti hann að hafa njósnað um félaga sína í kaþólsku kirkjunni. Í fyrstu neitaði Wielgus ásökunum en þegar eftirlitsnefnd kirkjunnar lýsti því svo yfir að vísbendingar um fortíð hans væru áreiðanlegar viðurkenndi hann að hafa verið á mála hjá leynilögreglunni. Málið hefur valdið miklu uppnámi í Póllandi enda átti kaþólska kirkjan í landinu, undir forystu Glemps, stóran þátt í falli pólsku kommúnistastjórnarinnar. Skoðanakönnun sem gerð var um helgina sýndi að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar vildu að Wielgus segði af sér embætti vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×