Skoðun

Gaddavírsvæðingin

Ef landgræðslan þyrfti ekki að eyða stórum hluta af því fé sem hún fær úthlutað frá ríkinu, í endalausar girðingar þá hefði hún miklu meira fé til ráðstöfunar í sjálfa uppgræðslu landsins. Allir þessir milljarðatugir sem fara í endalaust óþolandi girðinganet um allt landið og meðfram öllum vegum er eingöngu nauðsynlegt vegna miðalda rányrkju búskaparhátta okkar með lausagöngu búfjár um landið. Er eitthvað vit í þessu? Með þeim skaða sem það veldur landinu að viðhalda þessum rányrkjumiðaldabúskap.



Ráðleysi ráðamanna og eiginhagsmunir bændastéttarinnar viðhalda þessu gamla úrelta kerfi, sem gengur stöðugt á landgæðin og kostar okkur offjár. Útgjöld ríkissjóðs til landbúnaðarins er svo ótrúleg að ég hef stundum líkt því við kostnað annarra þjóða við herinn. Að girða af sauðfjárjarðirnar er eina vitið, og e.t.v. sumarbeitahólf á þar til völdum svæðum sem fjáreigendur bæru síðan ábyrgð á að væru ekki ofnýtt til skaða því það væri þeirra hagsmunamál. Þá þyrfti engar aðrar girðingar,hvorki meðfram öllum vegum, sem er alger plága fyrir alla sem keyra um landið og geta á endanum hvergi stoppað nema við sjoppur eða bensínstaði.



Þessar fangabúðagirðingar borgum við skattborgararnir eingöngu vegna sauðfés bænda sem rásar stjórnlaust um landið. Sama er að segja um alla þá sem eru að vinna að uppgræðslu eða skógrækt þeir verða að víggirða svæðið fyrst. Er eitthvað vit í þessu,hvað finnst þér lesandi góður? Bara girðingakostnaður á ári kostar okkur 150 til 200 miljónir á ári (meðaltal síðustu 4 ára). Þessum peningum væri betur varið í það að girða af sauðfé í stað þess að girða okkur fólkið í landinu frá landinu og gera það lítt fýsilegt til ferðalaga.



Höfundur er leikkona og fyrrverandi formaður Lífs og lands.




Skoðun

Sjá meira


×