Erlent

Abbas boðar kosningar

Mahmoud Abbas forseti Palestínu sagði í ræðu nú í morgun að Hamas-samtökin bæru ábyrgð á róstunum sem nú ríkja á heimastjórnarsvæðunum. Hann hótaði að leysa ríkisstjórnina frá völdum og lét að því liggja að þing- og forsetakosningar væru á næsta leiti.

Alger upplausn hefur ríkt á herteknu svæðunum undanfarna daga vegna síendurtekinn skæra Hamas-liða og stuðningsmanna Fatah-hreyfingar Mahmouds Abbas. Skotið var á bíl Ismail Haniyeh, forsætisráðherra og einn leiðtoga Hamas, við landamæri Egyptalands og Gaza í fyrrinótt og í gær særðust á fjórða tug manna í átökum á Vesturbakkanum og á Gaza.

Í morgun var hins vegar allt með kyrrum kjörum enda höfðu leiðtogar fylkinganna beðið liðsmenn sína um að halda ró sinni. Þannig benti Khaled Mashaal, leiðtogi Hamas sem situr í útlegð í Sýrlandi, í yfirlýsingu sinni á að baráttan ætti að beinast gegn hernámi Ísraela en ekki gegn öðrum Palestínumönnum.

Abbas forseti hélt svo sannkallaða þrumuræðu nú á tólfta tímanum. Þar sagði hann Hamas bera ábyrgð á óöldinni í Palestínu undanfarna daga en undirstrikaði jafnframt vandlega að hann myndi ekki láta það viðgangast að borgarastríð brytist út. Hann minnti auk þess á rétt sinn sem forseta til að leysa upp heimastjórnina, en henni hafa Hamas samtökin stýrt undanfarin misseri. "Ég þarf ekki á ríkisstjórn að halda mér til skemmtunar, ég þarf ríkisstjórn sem er fær um að fá þvingunum Vesturlanda aflétt," bætti hann við og vísaði þar til þess að Bandaríkin og Evrópusambandið hafa fryst allar styrkveitingar til Palestínu vegna Hamas-stjórnarinnar. Forsetinn klykkti svo loks út með því að segja að hann vildi að þing- og forsetakosningar yrðu haldnar svo fljótt sem auðið væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×