Erlent

Rambað á barmi borgarastyrjaldar

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, var sýnt banatilræði í nótt.
Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, var sýnt banatilræði í nótt. MYND/AP

Liðsmenn Hamas-samtakanna saka Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, um að reyna að koma af stað stríði á heimastjórnarsvæðunum. Fjöldi manna hefur særst í átökum á milli Hamas og Fatah-hreyfingar forsetans undanfarinn sólarhring og í nótt var skotið á bíl Ismails Haniyehs, forsætisráðherra.

Haniyeh var að koma frá Egyptalandi með um tvo milljarða íslenskra króna í farteskinu sem hann hafði safnað á ferðalagi sínu. Ísraelar lokuðu landamærunum þar til Haniyeh féllst á að skilja peningana eftir í Egyptalandi. Þegar hann var svo loks kominn yfir til Gaza tók ekki betra við. Heiftarlegur skotbardagi braust út á milli lífvarða Haniyeh og vopnaðra manna, tengdum Fatah-hreyfingu Mahmoud Abbas forseta. Einn beið bana og fimm særðust, þar á meðal sonur Haniyeh, en hann komst sjálfur undan við illan leik.

Í morgun kom til harðra bardaga á milli Fatah- og Hamas-liða, bæði á Gaza-ströndinni og í Ramallah á Vesturbakkanum. Yfir þrjátíu manns særðust í þeim átökum. Á fjöldafundi í Gazaborg í dag sem yfir 100.000 manns sóttu sakaði Khalil al-Hayya, einn af leiðtogum Hamas, Abbas um að ætla að koma af stað stríði og utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar vandaði forsetanum ekki heldur kveðjurnar.

Grunnt hefur verið á því góða með fylkingununum að undanförnu, sérstaklega eftir að þrír synir háttsetts Fatah-liða voru myrtir í byrjun vikunnar og muni aukast enn frekar vegna árásarinnar á Haniyeh og ásakana Hamas. Vonir um myndun þjóðstjórnar fylkinginna virðast því hafa verið tálsýn ein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×