Erlent

Valdarán virðist í uppsiglingu

Frank Bainimarama, herforingi, á blaðamannafundi í Suva, höfuðborg Fiji-eyja, í dag.
Frank Bainimarama, herforingi, á blaðamannafundi í Suva, höfuðborg Fiji-eyja, í dag. MYND/AP

Svo virðist sem valdarán sé í uppsiglingu á Fiji-eyjum. Herinn afvopnaði í dag viðbragðssveitir lögreglu og einangraði höfuðborgina. Herforingi, sem hefur hótað því að ræna völdum, segir þetta aðeins gert til að koma í veg fyrir vopnuð átök á eyjunum.

Herinn hefur sett upp vegatálma víðsvegar í Suva, höfuðborg Fiji-eyja. Talið er að Frank Bainimarama, herforingi, ætli að ræna völdum líkt og hann hefur hótað segi Laisenia Qarase, forsætisráðherra ekki af sér. Bainimarama vildi þó ekki staðfesta í dag að valdarán væri á næsta leiti og sagði vopn haldlögð til að tryggja öryggi viðbragðssveitarmanna. Hann vildi einnig tryggja að vopn sveitanna yrðu ekki notuð gegn hermönnum. Þegar fréttamaður spurði Bainimarama hver stjórnaði landinu sagðist hann ekki hafa neitt um það að segja á þeirri stundu og fór af blaðamannafundi sínum.

Bainimarama og Qarase hafa eldað grátt silfur síðustu mánuði, eða allt frá því forsætisráðherrann ákvað að náða þá menn sem rændu völdum á eyjunum fyrir sex árum. Qarase var hvergi banginn þegar fréttamenn ræddu við hann snemma í morgun. Hann sagðist ekki ætla að segja af sér. Hann ætlaði að berjast fyrir lýðræði í landinu sem hann og ráðherrar í ríkisstjórn vildu verja.

Ef völdum verður rænt á Fiji-eyjum á næstu dögum verður það í fjórða sinn á nítján árum. Um níu hundruð þúsund manns búa þar en þjóðin er ein sú ríkasta og þróaðasta í Kyrrahafi. Þangað koma um fjögur hundruð þúsund ferðamenn árlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×