Erlent

Pinochet veittar nábjargirnar

Læknar Pinochet ræða við blaðamenn um ástand hans.
Læknar Pinochet ræða við blaðamenn um ástand hans. MYND/AP

Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra í Chile, er við dauðans dyr eftir alvarlegt hjartaáfall sem hann fékk í gær. Að sögn AP-fréttastofunnar hefur prestur veitt honum hinsta sakramentið.

Pinochet hefur lengi verið heilsuveill þannig að fréttirnar um hjartaáfallið þurfa kannski ekki að koma mjög á óvart. Líðan hans er sögð stöðug en alvarleg. Pinochet var oddviti herforingjastjórnarinnar sem rændi völdum í Chile árið 1973 en hún ríkti allt til ársins 1990. Á meðan ógnarstjórn hans var við völd voru yfir 3.000 manns myrtir, eða látnir hverfa. Talið er að allt að 28.000 manns hafi sætt pyntingum og misþyrmingum leynilögreglu landsins. Margsinnis hefur verið reynt að draga Pinochet fyrir dóm en hann hefur aldrei þurft að svara fyrir mannréttindabrot sín þar sem lögfræðingum hans hefur ávallt tekist að sannfæra dómara um að hann sé of veikur til að þola réttarhöld. Að undanförnu hefur hann setið í stofufangelsi í Santíagó, höfuðborg Chile. Þegar hann varð 91 árs fyrir rúmri viku gaf hann út yfirlýsingu þar sem hann sagðist taka pólitíska ábyrgð á ofbeldinu sem var framið í stjórnartíð hans. Hann hefði hins vegar einungis verið knúinn af þrá til að gera Chile að stórkostlegu landi og koma í veg fyrir að það liðaðist í sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×