Erlent

Tæplega hundrað liggja í valnum

Óttast er að hátt í hundrað manns hafi farist þegar enn ein bílsprengjuárásin var gerð á sjíahverfi í Bagdad í dag. Síðastliðinn mánuður var sá mannskæðasti í Írak frá því að ráðist var inn í landið.

Það er engin furða að margar af stærstu fréttastofum heims séu farnar að kalla vargöldina í Írak borgarastyrjöld því ofbeldið í landinu fer stöðugt vaxandi og mannfallið um leið, sérstaklega á meðal saklausra borgara. Árásin í dag er í raun dæmigerð fyrir þetta en hún var gerð með því að aka þremur bílum, drekkhlöðnum sprengiefnum, að vinsælu verslunarhverfi í Bagdad. Sprengjurnar sprungu örskömmu millibili og þegar allt var um garð gengið lágu hátt í hundrað manns í valnum. Fjölmargir særðust og voru þeir fluttir á nærliggjandi sjúkrahús. Þá rannsakar lögregla tildrög þess að vörubíl var ekið á strætisvagnabiðstöð skammt utan við Bagdad í morgun með þeim afleiðingum að 22 létu lífið. Talið er afar ólíklegt að þar hafi verið um slys að ræða. Þetta skelfilega upphaf á mánuðinum þarf því miður ekki að koma á óvart því í í síðastliðnum mánuði létu 1.850 borgarar lífið vegna ofbeldisverka í Írak, fleiri en nokkru sinni fyrr. Það eru næstum því helmingi fleiri dauðsföll en í mánuðinum á undan en sá var blóði drifnari en dæmi voru um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×