Erlent

Á fimmta hundrað manns taldir af

Óttast er að yfir 400 manns hafi farist þegar fellibylurinn Durian gekk yfir Filippseyjar í gær. Við rætur eldfjallsins Mayon lentu heilu þorpin undir miklum aur- og grjótskriðum.

Þegar Durian gekk á land á Filippseyjum í gærkvöld vantaði hann örlítið upp á til að geta flokkast sem fimmta og hæsta stigs fellibylur. Vindhraðinn í honum náði allt að 62 metrum á sekúndu enda rifnuðu tré upp með rótum, ljósastaurar lögðust niður og hús fuku um koll þar sem veðrið var verst. Storminum fylgdi gríðarleg úrkoma og mesta manntjónið var einmitt af hennar völdum. Vatnselgurinn varð til þess að los komst á hlíðar eldfjallsins Mayon, sem í sumar gaus minniháttar eldgosi, svo úr varð mikið berghlaup. Aurskriðurnar dundu á þorpum við rætur fjallsins en í skriðunum mátti sjá björg á við meðalstórar bifreiðar. Tæplega tvö hundruð lík hafa þegar fundist í rústunum en að sögn talsmanns Rauða krossins á svæðinu er annarra tvö hundruð saknað. Nokkrum hefur þó tekist að bjarga, meðal annars var ófrískri konu kippt upp úr eðjunni yfir í þyrlu. Á þeim svæðum þar sem stormurinn olli mestum skaða ríkir alger neyð. 11.000 manns eru heimilislausir og stór svæði á eyjunum eru án rafmagns og vatns. Durian er nú á Suður-Kínahafi og er búist við að hann komi til Víetnam um helgina. Þá verður mesti vindurinn aftur á móti farinn úr honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×